Brot úr 60 ára sögu Samtaka innviðaverktaka

Samtök innviðaverktaka voru stofnuð 7. desember árið 1953 á skrifstofu Almenna byggingafélagsins hf. í Reykjavík. Fram til ársins 2024 hétu samtökin Félag vinnuvélaeigenda og upphaflegur tilgangur félagsins var að efla samstarf vinnuvélaeigenda og gæta sameiginlegra hagsmuna þeirra.

Stofnendur voru 9 talsins: Jón G. Halldórsson, f.h. Almenna byggingafélagsins hf., Valdimar Þórðarson, framkvæmdastjóri, Helgi Lárusson, Haraldur Bjarnason, f.h. Goða hf., Benedikt Sveinsson, f.h. Benedikts og Gissurar hf., Gunnar Guðmundsson, Sigurjón Magnússon f.h. Þungavinnuvéla hf., Bárður Óli Pálsson f.h. Jarðýtunnar sf. og Hans Wíum f.h. Sambands íslenskra samvinnufélaga.

Fyrstu stjórn skipuðu þeir Jón G. Halldórsson, formaður, Bárður Óli Pálsson, og Haraldur Bjarnason. Jón var formaður samtakanna til ársins 1987 eða í rúm 34 ár.

Samtök innviðaverktaka hafa átt aðild að Samtökum iðnaðarins frá stofnun þeirra árið 1993. 

Hlutverk og stefna Samtaka innviðaverktaka

Hlutverk Samtaka innviðaverktaka er að stuðla að bættu starfsumhverfi innviðaverktaka, vera sterkur málsvari félagsmanna, upphefja ímynd greinarinnar og tryggja öflugt alþjóðlegt samstarf við systursamtök.

Gott starfsumhverfi innviðaverktaka gerir þeim kleift að mæta þarfri innviðauppbyggingu á heilbrigðum útboðs- og verktakamarkaði.

Stefnuáherslur samtakanna 2024-2029 eru eftirfarandi:

  1. Öflug innviðauppbygging.
  2. Tækniframfarir mæta þörfum markaðarins.
  3. Kröftugur og hæfur mannauður starfar á aðlagandi atvinnumarkaði.
  4. Jákvæð ásýnd og öflugt félagsstarf.

Hvatinn að stofnun samtakanna

Framkvæmdir á vegum hersins á Keflavíkurflugvelli áttu stóran þátt í að ráðist var í að stofna samtökin. Stofnun Sameinaðra verktaka og vinna þeirra fyrir bandaríska verktaka skapaði þenslu á vinnuvélamarkaði og þörfin á að halda reiðu á hlutunum jókst.

Félagsmenn

Félagsmönnum fjölgaði hægt og bítandi til að byrja með. Árið 1960 voru þeir 20 en voru orðnir 160 fimmtán árum síðar. Breiður hópur félagsmanna myndar samtökin í dag, allt frá einyrkjum upp í stór jarðvinnufyrirtæki. 

Fræðslumál og menntun

Fræðsla og kjaramál hafa ævinlega tengst störfum samtakanna. Framan af gætti nokkurs losarabrags varðandi réttindamál vinnuvélstjóra en árið 1966 var byrjað að halda námskeið fyrir vinnuvélstjóra sem tengdust kjaramálum. Fólki varð ljóst að bætt menntun allra, sem í verktakaiðnaðinum störfuðu, væri undirstaða framfara í greininni. Merkur áfangi í fræðslumálum náðist árið 1982 þegar komst á vísir að vinnuvélaskóla á vegum Iðntæknistofnunnar sem skyldi sjá um grunn- og framhaldsnámskeið fyrir stjórnendur vinnuvéla. Áður höfðu verið haldin námskeið í húsakynnum Vinnuveitendasambandsins eða úti á landi.

Haustið 2021 hófst nám í jarðvirkjun við Tækniskólann en samtökin spiluðu stóran þátt í að koma því á laggirnar.

Aðild
Fyrirtæki og sjálfstæðir atvinnurekendur sem starfa í framleiðslu- og þjónustuiðnaði eða skyldum greinum geta orðið aðilar að Samtökum iðnaðarins og viðeigandi aðildarfélagi þar sem það á við. Aðild að Samtökum iðnaðarins getur því orðið með tvennum hætti, beinni aðild og aðild gegnum aðildarfélag.
Sækja um aðild
Stjórn félagsins
Innviðanefnd
Orkuskiptanefnd
Lög félagsins
Reglur merkis félagsins