Brot úr 60 ára sögu Félags vinnuvélaeigenda

Félag vinnuvélaeigenda var stofnað 7. desember árið 1953 á skrifstofu Almenna byggingafélagsins hf. í Reykjavík. Tilgangur félagsins var að efla samstarf vinnuvélaeigenda og gæta sameiginlegra hagsmuna þeirra.

Stofnendur voru 9 talsins: Jón G. Halldórsson, f.h. Almenna byggingafélagsins hf., Valdimar Þórðarson, framkvæmdastjóri, Helgi Lárusson, Haraldur Bjarnason, fyrir hönd Goða hf., Benedikt Sveinsson, f.h. Benedikts og Gissurar hf., Gunnar Guðmundsson, Sigurjón Magnússon f.h. Þungavinnuvéla hf., Bárður Óli Pálsson f.h. Jarðýtunnar sf. og Hans Wíum f.h. Sambands íslenskra samvinnufélaga.

Fyrstu stjórn skipuðu þeir Jón G. Halldórsson, formaður, Bárður Óli Pálsson, og Haraldur Bjarnason. Jón var formaður félagsins til ársins 1987 eða í rúm 34 ár.

Hvatinn að stofnun félagsins

Framkvæmdir á vegum hersins á Keflavíkurflugvelli áttu stóran þátt í að ráðist var í að stofna félagið. Stofnun Sameinaðra verktaka og vinna þeirra fyrir bandaríska verktaka skapaði þenslu á vinnuvélamarkaði og þörfin á að halda reiðu á hlutunum jókst.

Félagsmenn

Félagsmönnum fjölgaði hægt og bítandi til að byrja með. Árið 1960 voru þeir 20 en voru orðnir 160 fimmtán árum síðar. Breiður hópur félagsmanna myndar félagið í dag, allt frá einyrkjum sem eiga eina vél og vinna á henni sjálfir upp í stór jarðvinnufyrirtæki. 

Gjaldskráin þungamiðja starfsins árum saman

Eitt helsta verkefni félagsins á árum áður var að gefa út gjaldskrá fyrir vinnuvélar. Tilgangurinn var upphaflega að láta reikna út rekstrarkostnað fyrir vinnuvélar en einnig að veita upplýsingar um verðbreytingar sem urðu á rekstrarkostnaði vélanna á tilteknu tímabili. Lengst af var gjaldskráin undir verðlagseftirliti eða um tuttugu ára skeið. Í lögum Félags vinnuvélaeigenda var t.d. ákvæði þess efnis að væri ekki eftir henni farið yrði viðkomandi sektaður.

Gjaldskráin hafði einnig að geyma helstu skilmála um leigu á vinnuvélum, skilgreiningu á helstu vinnuvélum og félagaskrá. Hún var gefin út þar til sett voru lög sem bönnuðu útgáfu verðskrár.

Gjaldskráin var merkilegt gagn og mikið notuð við útboðsgerð af hálfu verkkaupa og tilboðsgerð verktaka.

Fyrstu áratugina var gjaldskráin gefin út einu sinni til tvisvar á ári en undir lok sjöunda áratugarins fer verðbólgan á fljúgandi ferð og árið 1980 var verðskráin gefin út sjö sinnum og átta sinnum árið eftir. Félagið reiknaði út rekstarkostnaðinn og birti í gjaldskránni ásamt tölum sem verðlagseftirlitið samþykkti og þar gætti  oft mikils misræmis milli þeirra talna, vinnuvélaeigendum í óhag. Þar gat munað allt að 50 af hundraði þegar verst lét.  

Sem fyrr segir var útgáfu gjaldskrár hætt um leið og slíkt var óheimilt samkvæmt lögum. Félagið virðir samkeppnislög og fylgir samkeppnisréttarstefnu Samtaka iðnaðarins. 

Fræðslumál og menntun

Fræðsla og kjaramál hafa ævinlega tengst störfum Félags vinnuvélaeigenda. Framan af gætti nokkurs losarabrags varðandi réttindamál vinnuvélstjóra en árið 1966 var byrjað að halda námskeið fyrir vinnuvélstjóra sem tengdust kjaramálum. Mönnum varð ljóst að bætt menntun allra, sem í verktakaiðnaðinum störfuðu, væri undirstaða framfara í greininni. Merkur áfangi í fræðslumálum náðist árið 1982 þegar komst á vísir að vinnuvélaskóla á vegum Iðntæknistofnunnar sem skyldi sjá um grunn- og framhaldsnámskeið fyrir stjórnendur vinnuvéla. Áður höfðu verið haldin námskeið í húsakynnum Vinnuveitendasambandsins eða úti á landi.

Til þessa hefur þó ekki verið í boði menntun við hæfi til að búa sig undir starf í faginu en nám í jarðvirkjun hefst við Tækniskólann árið 2021. 

Harðnandi samkeppni með útboðum

Félagsmenn hafa jafnan verið eindregnir stuðningsmenn útboða og samninga um verk sem byggjast á samkeppnistilboðum. Starfsemi verktaka eykur hagsæld í landinu en til að svo megi vera þurfa þeir að eiga gott samstarf við stjórnvöld. Vinnubrögð varðandi verkefnaval og útboð þurfa að vera yfirveguð og upplýsingastreymi milli aðila gott. Lykillinn að farsælli þróun verktakastarfsemi er að streymi verkefna sé sem jafnast og komi með skipulegum hætti án tilviljana og óðagots. 

Gott samstarf við Samtök iðnaðarins

Félag vinnuvélaeigenda hefur átt aðild að Samtökum iðnaðarins frá stofnun þeirra árið 1993. Samstarf félagsins og SI hefur alla tíð verið með eindæmum gott og það hefur notið góðs af málefnum sem samtökin hafa beitt sér fyrir, s.s varðandi útboð og gæðastjórnun.

Félag vinnuvélaeigenda hefur unnið að mörgum og fjölbreyttum baráttumálum sem varða framgang greinarinnar í gegnum tíðina. Þau eru flest tengd verkalýðsmálum, útboðsmálum, tilhögun framkvæmda og menntamálum. Að þessu hefur verið unnið í samstarfi við aðra, svo sem Verktakasamband Íslands, Samtök iðnaðarins, verkalýðsfélögin og Samtök atvinnulífsins. Allt eru þetta langtímaverkefni sem aldrei verður lát á til að þróunin verði fram á við.

Aðild
Fyrirtæki og sjálfstæðir atvinnurekendur sem starfa í framleiðslu- og þjónustuiðnaði eða skyldum greinum geta orðið aðilar að Samtökum iðnaðarins og viðeigandi aðildarfélagi þar sem það á við. Aðild að Samtökum iðnaðarins getur því orðið með tvennum hætti, beinni aðild og aðild gegnum aðildarfélag.
Sækja um aðild
Stjórn félagsins
Innviðanefnd
Orkuskiptanefnd
Lög félagsins
Reglur merkis félagsins